Sveitarfélagið Suðurland

Sveitarstjórnir Ásahrepps, Rangárþings ytra, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps hafa skipað verkefnishóp til að kanna hvaða áhrif sameining sveitarfélaganna myndi hafa á rekstur og þjónustu sveitarfélaganna. Verkefnið hefur hlotið nafnið „Sveitarfélagið Suðurland“. 

Í verkefnishópnum sitja tveir fulltrúar úr hverri sveitarstjórn, auk framkvæmdastjóra sveitarfélaganna. Formaður verkefnishópsins er Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra. Hópurinn hefur samið við RR ráðgjöf um að stýra verkefninu og leiða vinnu við greiningar.

Markmið verkefnishópsins er að gera tillögu að því til hlutaðeigandi sveitarstjórna hvort hefja skuli sameiningarviðræður samkvæmt 119. grein Sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Verkefnishópurinn mun leita svara við ýmsum spurningum varðandi áhrif mögulegrar sameiningar á fjármál, rekstur, stjórnsýslu og þjónustu við íbúa svæðisins til að meta hvort hag íbúanna er betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi en í núverandi skipulagi.

Gert er ráð fyrir að niðurstaða verkefnishópsins liggi fyrir í lok október 2020.

Tímaáætlun Sveitarfélagsins Suðurlands, endurskoðuð 3. apríl 2020