Skaftárhreppur

Skaftárhreppur varð til árið 1990 með sameiningu fimm hreppa Hörgslandshrepps, Kirkjubæjarhrepps, Leiðvallarhrepps, Skaftártunguhrepps og Álftavershrepps. Í sveitarfélaginu búa 627 íbúar, þ.a. um 34% á Kirkjubæjarklaustri.

Skaftárhreppur er um 6.800 km2 og er eitt landstærsta sveitarfélag Íslands. Sveitarfélagið þekur um 7% landsins. Að vestan liggja mörkin nálægt Blautukvísl á Mýrdalssandi, um Höfðabrekkujökul/Kötlujökul og Mýrdalsjökul. Að austan ráða sýslumörk nærri Sandgígjukvísl á Skeiðarársandi. Í norðri eru mörkin á Vatnajökli og eftir Tungnaá.

Í sveitarfélaginu er einn þéttbýliskjarni, Kirkjubæjarklaustur, sem liggur miðsvæðis í héraðinu og þjónar aðliggjandi byggðum, en hefur á síðustu árum verið að eflast sem alhliða ferðaþjónustustaður.