Rangárþing ytra

Rangárþing ytra varð til við sameiningu Djúpárhrepps, Holta- og Landssveitar og Rangárvallahrepps árið 2002. Íbúar í sveitarfélaginu voru 1.682 1. Janúar 2020.

Rangárþing ytra er mikið landbúnaðarhérað og hestamennska er stunduð í miklu mæli. Hella er stærsti þéttbýlis- og atvinnukjarni sveitarfélagsins og þar búa um 53% íbúa sveitarfélagsins. Þar byggist atvinnulífið að mestu á þjónustu við landbúnaðinn, auk þjónustu við íbúa svæðisins og ferðamenn. Aðrir þéttbýliskjarnar í sveitarfélaginu eru Þykkvibær og Rauðalækur.

Rangárþing ytra er 3.177 km2 að flatarmáli. Landssvæði sveitarfélagsins afmarkast að mestu af Þjórsá að vestan, vatnaskilum að norðan að Vatnajökli og Tungnaá. Að sunnan fylgja mörkin Mýrdalsjökli að Eystri-Rangá.

Í sveitarfélaginu eru margar þekktar náttúruperlur eins og Hekla og Landmannalaugar auk margra annarra áhugaverðra staða m.a. sögustaða allt frá Landnámsöld.

Mynd af landsvæðinu Rangárþingi ytra