Rangárþing eystra

Sveitarfélagið Rangárþing eystra var stofnað 9. júní 2002 þegar sameinuð voru sex sveitarfélög; Austur-Eyjafjallahreppur, Vestur-Eyjafjallahreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur-Landeyjahreppur, Fljótshlíðarhreppur og Hvolhreppur. Íbúar í sveitarfélaginu eru 1961 og af þeim búa um 51,4% á Hvolsvelli sem er eini þéttbýlikjarni sveitarfélagsins

Sveitarfélagið er um 1.840 km2 að flatarmáli. Mörk sveitarfélagsins eru í grófum dráttum við Hólsá, um Landeyjar og við Þverá í vestri, við Eystri Rangá og um Þríhyrning og Tindfjallajökul í norðri, á Mýrdalsjökli í austri og til sjávar við Jökulsá á Sólheimasandi. Sveitarfélagsmörkin fylgja mörkum frá Landmælingum Íslands nema dregin er bein lína milli Hæringsfells og Ýmis skv. landamerkjalýsingu frá því um 1890. Aðliggjandi sveitarfélög eru Rangárþing ytra að vestan og norðan og Mýrdalshreppur að austan. Skaftárhreppur liggur einnig að Rangárþingi eystra á Mýrdalsjökli.

Landslag innan sveitarfélagsins er fjölbreytt frá fjöru til fjalla og jökla. Ströndin er öll láglend, sendin og hafnlaus frá náttúrunnar hendi með lónum og ósum. Sandarnir eru Landeyjasandur í vestri, Eyjafjallasandur og Skógasandur austast. Á vesturhluta svæðisins er víðáttumikið flatlendi upp frá ströndinni, Landeyjar, allt upp að Fljótshlíð. Þaðan teygir það sig inn með aurum Markarfljóts milli Fljótshlíðar og Eyjafjalla. Í Fljótshlíð hækkar landið í átt að Tindfjallajökli. Í austurhluta sveitarfélagsins rísa há og svipmikil fjöll með áberandi hálendisbrún upp af flatlendinu og ná hæstu hæðum í jöklunum Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli. Áberandi kennileiti auk jöklanna þriggja eru Þríhyrningur upp af Fljótshlíð, Stóra-Dímon á aurum Markarfljóts og brattar hlíðar Eyjafjalla. Þrjú eldstöðvakerfi hafa einkum mótað jarðfræði svæðisins og nánast umlyki það.