Lottóvinningur í Lesetó

Október er alþjóðlegur netöryggismánuður. Þeir eru eflaust margir sem standa í þeirri trú að netöryggi sé málefni sem fyrirtæki og stofnanir þurfi eingöngu að huga að í samráði við sérfræðinga í upplýsingatækni. Að við, sem einstaklingar, þurfum ekkert að velta því fyrir okkur. En því fer fjarri. Netöryggi er mál sem við þurfum öll að huga að í okkar nánasta umhverfi, hjá börnunum okkar, hjá foreldrum okkarog bara í öllu okkar daglega lífi.

Netglæpir í dag eru ekki einhverjir unglingar í kjöllurum að leika sér í tölvuleikjum. Netglæpir eru arðbær glæpaiðnaður og veltir milljörðum króna á ári hverju. Þessir þrjótar sem stunda netglæpi, spila inn á traust fólks og að baki þeirra liggur oft mikill sálfræðihernaður. Þeir reyna að nálgast það sem þér er kærast eða höfðar mest til þín, í þeirri von að geta svikið fé út úr þér og að þú skammist þín svo mikið að þú látir ekki vita að þú hafir orðið fyrir svikunum.

Líf okkar er orðið svo háð tækni og netsambandi og því þurfum við að átta okkur á hættunum sem leynast víða, rétt eins og við hugum að öryggi á heimilinu með því að læsa hurðum og loka gluggum.

Við þurfum að ræða um netöryggi við börnin okkar og hvað hættur leynast á netinu, rétt eins og við ræðum við þau um aðrar hættur í lífinu. Á vefnum www.saft.is má finna mikið af fróðleik fyrir börn, unglinga og foreldra um netöryggi og hvernig við höfum okkur í stafrænum heimi. Það er tilvalið að fara yfir það fræðsluefni saman í góðu tómi.

Netglæpamenn komast yfir gígantískt magn af upplýsingum um einstaklinga eins og símanúmer og netföng í gagnalekum og nýta sér það óspart. Þess vegna eru nokkrir lykilþættir sem er gott að hafa ávallt í huga.

Gætum þess að skipta reglulega um lykilorð á þeim vefsíðum og svæðum sem við skráum okkur inn á. Sérfræðingar vilja meina að æskilegt sé að skipta um lykilorð á ca. 6 mánaða fresti og blanda saman hástöfum, lástöfum og tölustöfum til að gera þessum svikahröppum sem erfiðast fyrir. Ef þú notar ennþá lykilorðið 1,2,3,4 alls staðar og hefur gert síðastliðin ár, er orðið tímabært að breyta því lykilorði sem allra fyrst.

Youtube stjarnan og fyrirlesarinn Chris Pirillo lét eftirfarandi orð falla um lykilorð og eru þau eiginlega of góð til að deila ekki áfram:
,,Lykilorð eru eins og nærbuxur. Ekki láta annað fólk sjá þær, skiptu reglulega og þú ættir ekki að deila þeim með ókunnugum.“
 
 Önnur góð aðferð er að setja spurningamerki við alla tölvupósta þar sem þú færð og ert beðin(n) að smella á slóð til að fá endurgreitt frá fyrirtæki/einstaklingi, eða greiða fyrir tiltekna vöru.

Netglæpamenn eru nefnilega orðnir mjög flinkir bæði að þýða texta og falsa merki fyrirtækja og því finnst mörgum eðlilegt að fá tölvupóst t.d. frá Póstinum ef það á von á vöru, eða frá Landsbankanum ef þeir eru í viðskiptum við þá.

Flest þjónustufyrirtæki í dag eru komnar með svokallaðar ,,mínar síður“ þar sem þú skráir þig inn með rafrænum skilríkum og getur séð upplýsingar um þjónustu og viðskipti, rétt eins og þú gerir í netbankanum. Það er um að gera að nota það til að fylgjast með t.d. sendingum eða endurgreiðslum. Ef að þú færð tölupóst með slóð til að smella á, og kannast ekki við að eiga von á slíku, hringdu í fyrirtækið og kannaðu málið áður en þú smellir á slóðina og ert þar með hugsanlega fallin í gildruna.

Þessi tegund af svindli hefur það að markmiði að veiða einstaklinginn í gildru og afrita kreditkortaupplýsingarnar. Um leið og viðkomandi er búinn að setja þær inn á slóðinni, tæmist yfirleitt kortið/reikningur viðkomandi.

Ef tölvupósturinn, eða sms – ið sem þú færð, er oft gott til að vera satt, eins og til dæmis að þú eigir lottóvinning á Lesótó eða fjarskyldur frændi í Azerbaijan vilji arfleiða þig að öllum sínum auði og það eina sem þú þarft að gera er að senda upplýsingar um bankareikning fyrir millifærslunni, þá er það yfirleitt svindl.

Ef þú ert að fá símtöl frá útlöndum, og sérð framandi símanúmer og gúgglar landsnúmerið og sérð að  þau eru frá Kenía eða Georgíu, en þekkir engan þar, ekki hringja til baka. Það er að öllum líkindum svindl og verið að reyna að veiða þig í gildru.

Það er nefnilega staðreynd að veikasti hlekkurinn í netöryggi liggur ekki í kerfunum, heldur sjálfum einstaklingunum sem bregðast við eins og netglæpamenn vilja að þeir bregðist við. Þess vegna er svo mikilvægt að hvert og eitt okkar, séum meðvituð um netöryggi í okkar nánasta umhverfi og í  öllu okkar daglega lífi.

Margrét V. Helgadóttir,
Verkefnastjóri Stafrænt Suðurland