Spurt og svarað

 • Er búið að ákveða að kosið verði um sameiningu?

  Já. Þegar sveitarstjórnirnar samþykktu að hefja formlegar viðræður í nóvember hófst ferli sem samkvæmt lögum endar með íbúakosningum.  Tillaga samstarfsnefndar er að þær fari fram samhliða alþingiskosningum 25. september 2021.

 • Ef sameining verður samþykkt, hvað mun sveitarfélagið heita?

  Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður nafnið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

 • Ef af sameiningu verður, hvenær tekur nýtt sveitarfélag til starfa?

  Eftir sveitarstjórnarkosningar sem fara fram 28. maí 2022. Gildistaka yrði um miðjan júní 2022

 • Munu sveitarstjórnarfulltrúar í sameinuðu sveitarfélagi verða fulltrúar fyrir alla íbúa, hvar sem þeir búa?

  Sveitarstjórnarmönnum ber samkvæmt lögum að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins alls.

 • Hver teiknaði þessar skemmtilegu myndir? Eru til fleiri?

  Elín Elísabet og Rán Flygenring myndlýstu því sem þær heyrðu og sáu á íbúafundum haustið 2020. Það eru fleiri teikningar á svsudurland.is 

 • Hver er munurinn á formlegum og óformlegum sameiningarviðræðum?

  Formlegar viðræður um sameiningu fara fram samkvæmt ákvæðum 119. gr. stjórnsýslulaga nr. 138/2011. Ferlinu því  lýkur með atkvæðagreiðslu á meðal íbúa og niðustöður atkvæðagreiðslunnar í hverju sveitarfélagi eru bindandi fyrir viðkomandi sveitarstjórn. Í ákvörðun um þátttöku í formlegum viðræðum felst því skuldbinding sveitarstjórnar til að láta fara fram atkvæðagreiðslu og til að fylgja niðurstöðum hennar. 

  Óformlegar viðræður fela ekki í sér skuldbindingu af hálfu hlutaðeigandi sveitarstjórna. Þær ráða hvernig viðræðurnar fara fram og geta hver um sig tekið ákvörðun um að hætta viðræðum ef þeim sýnist svo. 

 • Hvað gerist næst ef ákvörðun verður tekin um formlegar viðræður um sameiningu?

  Ef sveitarstjórnirnar ákveða að hefja formlegar sameiningarviðræður skv. 119. grein sveitarstjórnarlaga skipa þær samstarfsnefnd sem fær það verkefni að kanna möguleika á sameiningu viðkomandi sveitarfélaga og undirbúa íbúakosningar. Samstarfsnefndin hefur nokkuð frjálsar hendur um það hvernig hún vinnur, en í lögunum er gert ráð fyrir að hún skili áliti til hlutaðeigandi sveitarstjórna.  Hefð hefur skapast fyrir því að samstarfsnefndir stilli upp framtíðarsýn fyrir sameinað sveitarfélag sem íbúar geta borið saman við núverandi stöðu.

 • Fá íbúar að taka þátt í að móta tillögu um sameiningu?

  Skipaðir hafa verið starfshópar sem í sitja fulltrúar sveitarfélaganna fimm. Hver hópur fjallar um afmarkaða þætti starfseminnar s.s. stjórnsýslu og fjármál. Síðar í ferlinu verða haldnir opnir íbúafundir þar sem íbúar geta komið sjónarmiðum sínum, athugasemdum og hugmyndum á framfæri. Ef ákveðið verður að hefja formlegar viðræður verður haft frekara samráð við íbúa um mótun framtíðarsýnar.

 • Hverjir hafa kosningarétt í atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga?

  Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í einu sveitarfélaganna sem um ræðir, eru sjálfráða og hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, sem uppfylla áðurnefnd skilyrði, hafa kosningarétt ef þeir hafa átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfleytt og ríkisborgarar annarra ríkja hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í fimm ár samfleytt. Sömu reglur gilda þegar kosið er til sveitarstjórna.