Spurt og svarað

 • Hvað gerist ef sveitarfélögin sameinast ekki?

  Þá starfa sveitarfélögin fimm áfram á sama hátt og áður og takast á við áskoranir ýmist með samstarfi eða ein og sér.  Alþingi hefur samþykkt nýtt íbúalágmark inn í sveitarstjórnarlögin sem sum sveitarfélaganna þurfa að taka til umræðu. 

  Í því skyni að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni skal stefna að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags sé ekki undir 1.000 árið við sveitarstjórnarkosningar 2026. (250 íbúar árið 2022)
      Ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 við almennar sveitarstjórnarkosningar skal sveitarstjórn þess, [..]::
       a.      hefja formlegar sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. eða
       b.      vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum, sbr. 1. mgr., og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.

   [..] þar skal m.a. fjallað um fjárhagslega og félagslega þætti sveitarfélagsins, íbúaþróun, þjónustu sveitarfélagsins og aðrar samfélagslegar aðstæður. 

 • Verða skólar og leikskólar sameinaðir?

  Lagt er upp með að skólar og leikskólar starfi áfram á þeim stöðum þar sem þeir eru nú, enda eru fjarlægðir það miklar að erfitt getur reynst að sameina skóla. 

 • Varðandi Stafrænt Suðurland. Mun það verkefni skila auknu gegnsæi í stjórnsýslunni og opna hana betur fyrir íbúum? Ef svo er, þá hvernig? Hvernig verður t.d. ritun og birtingu fundargerða háttað? Verða allar fundargerðir sveitarfélaga rafrænar (ekki skönn

  Það er hluti af verkefninu að auka gegnsæi í stjórnsýslu og gera upplýsingar aðgengilegri fyrir íbúa. Að sjálfsögðu eru þar undantekningar þegar viðkvæm málefni eru til umfjöllunar sbr. barnaverndarmál og önnur málefni sem varin eru af lögum um persónuvernd eða öðrum trúnaðarreglum. Öll sveitarfélögin birta fundargerðir á vefnum, en eins og þú bendir á er það með misaðgengilegum hætti. Einn hluti verkefnisins er einmitt að skilgreina  verkferlið við fundargerðir  í dag, og hvernig er best að hagræða því þannig að það verði sem aðgengilegast fyrir íbúa að sjá hvaða ákvarðanir hafa verið teknar og hvaða verkefni eru í vinnslu. Það getur bæði verið beint á ytri vefinn og í sumum tilfellum eru þessar upplýsingar inn á íbúagáttum - Við eigum alveg eftir að skoða hvernig það verður útfært.

 • Hver verður staða Kirkjuhvols inni í stjórnsýslunni ef sameinað verður? Mun nýtt sveitarfélag reka Kirkjuhvol sem sjálfstæða einingu?

  Sameiningin hefði ekki áhrif á rekstur dvalarheimila og breytingar á starfsemi þeirra eða rekstrarformi hafa verið ekki verið ræddar. 

 • Geta fulltrúar í samstarfsnefndinni sagt okkur hvers vegna þeir telja að áhuginn á sameiningu sé lítill?

  Kynning á niðurstöðum samstarfsnefndar er rétt að hefjast. Góð þátttaka í fyrsta íbúafundi sýnir að áhuginn á að kynna sér málin er verulegur.

 • Hvaða rekstrarform eru á Kirkjuhvoli vs. Lundi til dæmis?

  Rekstur Lundar (á Hellu) er á hendi ríkisins, sem ber ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila samkvæmt lögum. Rekstur Kirkjuhvols á Hvolsvelli á hendi Rangárþings eystra og rekstur Klausturhóla er á hendi Skaftárhrepps skv. þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands.

 • Þið talið um að ársreikningar fari úr 15 í 1. Af hverju er ekki búið að fækka þeim í 5? Rang.eystra. Rang.ytra. Ásahreppur. Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur

  Samkvæmt lögum er hvert byggðasamlag og hvert sveitarfélag gert upp fyrir sig. Það er því ekki hægt að fækka ársreikningum nema fækka rekstrareiningum. Á meðan sveitarfélögin reka þjónustu í samstarfi eru því takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að fækka ársreikningum.

 • Á að vera með sameiginlega fjallskilanefnd?

  Afréttir á svæðinu eru víðfeðmir og svæðaskipting fjallskila er því nauðsynleg. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á svæðaskiptingu og fækkun fjallskilanefnda. 

 • Mér finnst eins og enginn sé hrifinn af byggðasamlögum, hvorki íbúar né kjörnir fulltrúar. Hvers vegna er þeim ekki slitið? Höfum við ekki efni á því? Geta sv.félögin ekki rekið sig sjálfstætt?

  Byggðasamlög hafa sína kosti og ókosti. Oft er talið hagkvæmara og/eða betra að veita þjónustuna í samstarfi frekar en að hvert sveitarfélag gerið það fyrir sig. Í þeim tilfellum þar sem sveitarfélög velja að hafa með sér samstarf um rekstur ber þeim að stofna byggðasamlag, nema samstarfið feli í sér að annað sveitarfélagið veiti hinu sveitarfélaginu þjónustu samkvæmt þjónustusamningi. Í núverandi sveitarfélagaskipan er hagkvæmt að reka byggðasamlög um þjónustuna en ef af sameiningu yrði næðist hagkvæmnin fram innan sveitarfélagsins.

 • Hver ábatinn í sameiningu fyrir sveitarfélögin sem hafa góðar tekjur og eru stöndug eins t.d. Rángárþing ytra? Hver verður kostnaður fyrir það? Minnkar hann eitthvað

  Íbúar allra sveitarfélaga myndu njóta góðs af öflugri og faglegri stjórnsýslu og því vænta hagræði sem hlytist af einföldun stjórnkerfis. Eins munu sameiningarframlög lækka skuldir í sameinuðu sveitarfélagi sem eykur svigrúm til fjárfestinga. Í framtíðarsýn samstarfsnefndar er reiknað með að þeir fjármunir sem losnar um verði nýttir til að bæta þjónustu frekar en að lækka kostnað.

 • Hver gætu verið laun fyrir hvern sveitarstjórnarfulltrúa í nýju sveitarfélagi? Eru það full meðallaun (600-700 þús)? Ef nei, hvernig á þá einhver sem er í annarri dagvinnu að geta sinnt þessu meðfram?

  Það er sveitarstjórnar nýs sveitarfélags að ákveð kjör sveitarstjórnarfulltrúa, en í framtíðarsýn samstarfsnefndar er gert ráð fyrir að greiðslur til sveitarstjórnarfulltrúa og nefndarmanna verði hækkaðar og vinnan skipulögð þannig að hún sé fjölskylduvænni. Vinnuveitendum ber samkvæmt lögum að gefa fulltrúum í sveitarstjórn svigrúm til að sinna skyldum sínum í sveitarstjórn.

 • Er ekki, vegna fjarlægðar Mýrdals og Skaftárhrepps, hægt að sameina bara Rang.eystra, Rang.ytra og Ásahrepp?

  Sú tillaga sem kosið er um nú nær til allra sveitarfélaganna. Verði hún felld í kosningunum 25. september gætu sveitarstjórnir skoðað aðra möguleika, svo sem þann sem spurt er um.

 • Verður öllum skipulags- og byggingafulltrúm sagt upp og einn ráðinn, með aðstoðarmönnum?

  Mönnun í skipulags- og byggingarmálum hefur ekki verið útfærð en það er ekki gert ráð fyrir að starfsmönnum í málaflokknum fækki. Í starfshópnum var lagt til að sérhæfingin yrði aukin og starfsfólki fjölgað.  Í skipulagslögum er gert ráð fyrir einum skipulagsfulltrúa og einum byggingarfulltrúa, en jafnframt getur sami aðili sinnt báðum hlutverkum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það kann því að vera að hlutverk starfsmanna breytist þótt starfsmönnum fækki ekki.

 • Ef sameinað verður hverjar eru þá hugmyndirnar varðandi skrifstofur sveitarfélaganna? Verður þeim og þeirri yfirbyggingu sem nú er til staðar haldið og þær reknar áfram með tilheyrandi kostnaði?

  Í framtíðarsýn samstarfsnefndar er gert ráð fyrir að skrifstofur verði áfram á þeim stöðum þar sem sveitarfélögin eru með starfsstöðvar til að tryggja aðgang íbúa að þjónustu. Gert er ráð fyrir aukinni sérhæfingu starfa og að starfsmenn geti valið sér starfsstöð eftir því hvað hentar hverjum og einum. Einnig er gert ráð fyrir að starfsmenn geti farið á milli starfsstöðva eftir því sem hentar hverju sinni. Fulltrúi sveitarstjóra yrði starfandi á hverri starfsstöð.

 • Verða dvalarheimili fyrir aldraða áfram rekin á þeim stöðum sem þau hafa verið?

  Það er gert ráð fyrir að dvalar- og hjúkrunarheimili, eins og önnur grunnþjónusta, verði áfram rekin á hverjum stað. Sameiningin hefði ekki áhrif á rekstur dvalarheimila og breytingar á starfsemi þeirra eða rekstrarformi hafa verið ekki verið ræddar. 

 • Hver verður fjárfestingargeta hjá nýju sveitarfélagi á ári? Einnig hvernig yrði því háttað og hver eru tækifærin fyrir hvert svæði?

  Áætluð fjárfestingargeta sameinaðs sveitarfélags eru 600-700 m.kr. árlega, en verður líklega meiri þegar tekið er tillit til skuldajöfnunarframlaga. Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður forgangsröðun fjárfestinga og viðhalds. Það er því ekki hægt að segja til um það hvernig fjárfestingar muni dreifast um svæðið.

 • Hver er ábatinn af sameiningu fyrir hvert og eitt sv.félag? Hvað þýðir þetta t.d. fyrir Rang. eystra? Verður meira fé til framkvæmda en nú er á þessu svæði? Finnst vanta svæðisbundna greiningu hjá ykkur

  Íbúar allra sveitarfélaga myndu njóta góðs af öflugri og faglegri stjórnsýslu og það vænta hagræði sem hlytist af einföldun stjórnkerfis myndi koma öllum til góða. Eins munu sameiningarframlög lækka skuldir í sameinuðu sveitarfélagi sem eykur svigrúm til fjárfestinga. Það má búast við að gjöld og skattar hækki þar sem þau eru lægst en lækki þar sem þau eru hæst.

 • Verður einn forstjóri settur yfir dvalarheimilin?

  Sameiningin hefði ekki áhrif á rekstur dvalarheimila og breytingar á starfsemi þeirra eða rekstrarformi hafa verið ekki verið ræddar. 

 • Getur verið ein yfirstjórn yfir hjúkrunarheimilunum til að hagræða í rekstri ?

  Sameiningin hefði ekki áhrif á rekstur dvalarheimila og breytingar á starfsemi þeirra eða rekstrarformi hafa verið ekki verið ræddar. 

 • Er ekki hægt að hagræða verulega í rekstri með því að sameina stofnanir í sameinuðu sveitarfélag, t.d. hafa einn skólastjóra? Sé ekkert um það í kynningunni, hvert verður hagræðið?

  Þetta var rætt í starfshópi um fræðslu- og félagsmál. Niðurstaðan var að ókostirnir við sameiningu skóla undir einum stjórnanda vægju þyngra en kostirnir. Það er því ekki gert ráð fyrir sameiningu skólastofnana í framtíðarsýn samstarfsnefndar. Skólarnir yrðu þó allir undir stjórn einnar fagnefndar sveitarfélagsins. Hagræði fælist aðallega í auknu samstarfi og hagnýtingu sérfræðiþekkingar á milli stofnana.

 • Er ríkisvaldið ekki búið að stilla því þannig upp að það verður ófært fyrir lítil sveitarfélög að standa undir lögbundnum skuldbindingum á næstu árum?

  Stefna stjórnvalda hefur verið að auka kröfur á sveitarfélög og stuðla að sameiningu þeirra. Nýlegar breytingar á sveitarstjórnarlögum fela í sér að fámenn sveitarfélög þurfa að gera grein fyrir stöðu sinni og getu til að sinna lögbundnum skyldum sínum og leggja mat á kosti sameiningar, vilji þau komast hjá því að sameinast.

 • Hvers vegna mun Ásahreppur ekki fá jöfnunarframlög að óbreyttu? Þarf hreppurinn að setja útsvarið sitt í topp til að fá framlögin?

  Árið 2019 var gerð sú breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að sveitarfélög sem ekki fullnýta heimildir til álagningar útsvars fá framvegis ekki tekjujöfnunarframlög. Sveitarfélagið hefur ekki notið útgjaldajöfnunarframlaga vegna hárra tekna í samanburði við sveitarfélög í sama stærðarflokki.

 • Verður kostnaður og laun við sveitarstjórnarmenn í sameinuðu sveitarfélagi minni en við núverandi fyrirkomulag? Er stefnt að hagræðingu á þessu sviði eða er markmiðið að hækka laun þeirra?

  Fækkun hlutverka hefur í för með sér að hægt er að greiða meira fyrir þau hlutverk sem eftir standa eða spara fjármuni. Sveitarstjórn nýs sveitarfélags tekur ákvörðun um hvort og hversu mikið á að hækka laun fyrir störf í sveitarstjórn og nefndum. Samstarfsnefnd mælir með því að nefndarlaun verði hækkuð.

 • Hverjir eru helstu neikvæðu punktarnir við sameiningu sem komu í ljós við þessa vinnu?

  Neikvæðir puntar úr umræðum koma fram í kynningarefni og sem áskoranir og ógnanir, þ.e. það fólk óttast að gæti gerst og ný sveitarstjórn þyrfti að vera meðvituð um. Sem dæmi má nefna óttann við að íbúar í jaðarbyggðum og í minni sveitarfélögum  missi áhrif og aðgengi að þjónustu eða að starfsstöðvum ríkisstofnana verði fækkað þegar sveitarfélagið er orðið eitt. Miðað við óbreytt jöfnunarkerfi og óbreyttan fjölda sveitarfélaga gætu framlög Jöfnunarsjóðs lækkað um 25-30 m.kr. á ári að teknu tilliti til hækkunar á framlögum vegna fullnýtingar útsvarsstofns í Ásahreppi. Sú breyting kæmi til framkvæmd 5 árum eftir sameiningu.

 • Afhverju verður það ekki meirihluti sem ræður í niðurstöðu kosninga í staðin fyrir að eitt sveitarfélag getur fellt sameininguna?

  Íbúar hvers sveitarfélags taka ákvörðun um framtíð síns sveitarfélags. Þegar kosið er um sameiningu sveitarfélaga er haldin sjálfstæð kosning í hverju þeirra sveitarfélaga sem um ræðir í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Einfaldur meirihluti kjósenda í hverju sveitarfélagi sem ræður því hvort viðkomandi sveitarfélag sameinast öðrum sveitarfélögum og niðurstaðan er bindandi fyrir sveitarstjórn.
  Í sveitarstjórnarlögum er heimild til að sameina þau sveitarfélög þar sem sameining hefur verið samþykkt þótt henni hafi verið hafnað í einhverju(m) þeirra sveitarfélaga sem tóku þátt í viðræðum, að því gefnu að 2/3 hlutar kjósenda í 2/3 hluta sveitarfélaganna hafi samþykkt sameiningu. Sveitarstjórnirnar fimm hafa lýst því yfir að þessi heimild verði ekki nýtt, enda má líta svo á að forsendur sameiningar séu svo mikið breyttar við brottfall eins eða fleiri sveitarfélaga að það kunni að hafa veruleg áhrif á vilja kjósenda til sameiningar.

 • Hver er kostnaðurinn orðinn við þessa sameiningarvinnu?

  Heildarkostnaður við verkefnið, frá því að að könnunarviðræður hófust og fram yfir sameiningarkosningar er áætlaður um 44 m.kr. Innifalið í því er kostnaður við fundi nefndarinar, verkefnisstjórn, kynningarmál og framkvæmd kosninganna. Allur kostnaður greiðist af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. 

 • Mun sameining hafa jákvæð áhrif á fasteignagjöld? Munu þau lækka?

  Fasteignaskatt þarf að samræma innan sveitarfélags. Hann munu því líklega hækka sumsstaðar og lækka annarsstaðar. Gjöld fyrir lóðarleigu,  vatnsveitu, fráveitu og tæmingu rotþróageta verið mismunandi ef þjónustan er mismnunandi en algengast er að sama gjaldskrá gildi fyrir allt sveitarfélagið. Það er því líklegt að þau verði einnig samræmd.  

 • En er ekki óhentugt fyrir sveitarfélag eins ig Mýrdalshrepp, sem hefur sýnt aðhald og góða rekstrarniðurstöðu, að sameinast t.d. Ásahreppi sem er í mínus í rekstri og íbúar óvanir gjaldtöku?

  Rekstrarniðurstaða Ásahrepps var neikvæð árið 2020 og gert er ráð fyrir að hún verði neikvæð árið 2021. Ásahreppur á hins vegar ónýtta tekjustofna þar sem útsvar er í lágmarki sem aftur veldur því að sveitarfélagið fær ekki framlög úr Jöfnunarsjóði. Sveitarstjórn gæti því aukið útsvarstekjur sveitarfélagsins um 14,3%, auk framlaga úr Jöfnunarsjóði. Ásahreppur á auk þess 155 m.kr. í handbært fé. Áhættan er því ekki mikil. 

 • Hvaða rekstrarform er á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hjallatúni og hvernig mun reksturinn á því falla inn í nýtt sveitarfélag? Er þetta Sjálfseignarstofnun?

  Rekstur Hjallatúns er á hendi Mýrdalshrepps og er skráð í fyrirtækjaskrá sem stofnun sveitarfélags. Sameinað sveitarfélag yfirtekur skuldbindingar núverandi sveitarfélaga, þ.á.m. rekstrarsamninga um rekstur öldrunarheimila. 

 • Mun T-listinn stefna á að bjóða fram lista í nýju sveitarfélagi?

  Það hefur ekki verið rætt innan T-listans.

 • Til verkefnishóps. Hvernig sjá þeir fyrir sér ráðningu sveitarstjóra? Er ekki skrítið ef sveitarstjóri er líka í sveitarstjórn? Myndast ekki hagsmunaárekstur ef hann er yfirmaður sjálfs síns?

  Ný sveitarstjórn tekur ákvörðun um það hvernig hún stendur að ráðningu sveitarstjóra. Allur gangur er á því hvort að sveitarstjórar eru pólitiskír fulltrúar eða ráðnir sérstaklega til starfans. Í sveitarstjórnarlögum, stjórnsýslulögum og siðareglum sveitarstjórnar eru ákvæði um það hvenær sveitarstjóra ber að víkja sæti við afgreiðslu mála til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

 • Hvernig verður reynt að koma í veg fyrir frændhygli í stjórnsýslunni? Verður sveitarfélagið með opinni og gegnsærri stjórnsýslu? Ef já, hvernig þá? Verður opið bókhald?

  Í framðarsýn samstarfsnefndar er sérstök áhersla lögð á gagnsæja, opna og faglega stjórnsýslu. Meðal annars er gert ráð fyrir að fundum verði streymt og að íbúar fái rauntímaaðgang að málum í íbúagátt. Opið bókhald hefur ekki verið rætt í samstarfsnefnd en kæmi vel til greina og myndi styðja við markmiðin. Hætta á frændhygli og hagsmunaárekstrum er talin vera minni í stærri sveitarfélögum en minni.

 • Hafa erlendir ríkisborgarar sveitarfélagana með ákveðið langa búsetu á Íslandi kosningarétt eins og í sveitarstjórnarkosningum?

  Kosningaréttur í sameiningarkosningum er sá sami og í sveitarstjórnarkosningum, sbr. 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.
   
  Kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórnar á hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili í sveitarfélaginu.
   Nú eiga ákvæði [9.–11. gr. laga um lögheimili og aðsetur] 1) við um hagi manns og telst hann þá ekki hafa glatað kosningarrétti þótt hann hafi tilkynnt flutning samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.
   Enn fremur eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag [og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag], 2) enda fullnægi þeir að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.
 • Í hverju fellst aukin þjónusta í íþróttamálum í Skaftárhreppi og Mýrdalshreppi?

  Þjónustustig í málaflokknum er mismunandi. Í Rangárþingi eystra er samfella í skóla- og tómstundastarfi og auka ferð í skóla- og frístundaakstri fyrir börn úr dreifbýlinu sem vilja nýta frístundir og félagsstarf. Í Skaftárhreppi eru greiddir frístundastyrkir. Í framtíðarsýn samstarfsnefndar er gert ráð fyrir að þjónustustig yrði jafnað, sem myndi líklega þýða aukna þjónustu akstri í Skaftárhreppi.

 • Oddviti Mýrdalshrepps lýsti skoðun sinni á sameiningu fremur afdráttarlaust á íbúafundi þar í bæ í liðinni viku. Hver er skoðun fulltrúa Skaftárhrepps í þessu máli?

  Eva Björk Harðardóttir, oddviti sveitarstjórnar í Skaftárhreppi og Sandra Brá Jóhannsdóttir hafa lýst því yfir að þær telji að hag íbúa Skaftárhrepps betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi og að þær styðji sameiningu.

 • Gæti Skaftárhreppur sameinast öðrum sveitarfélögum ef Mýrdælingar vilja ekki vera með?

  Já. Sveitarstjórn Skaftárhrepps gæti ákveðið að hefja sameiningarviðræður við eitt eða fleiri önnur sveitarfélög ef sameiningartillagan fellur.Sveitarstjórnir sveitarfélaganna fimm hafa lýst því yfir að þær muni ekki nýta heimildir til að sameina sveitarfélög þar sem sameiningartillagan er samþykkt, þrátt fyrir að íbúar einhverra sveitarfélaga hafni sameiningu. Það þarf því að hefja nýjar sameiningarviðræður og bera nýja tillögu undir atkvæði íbúa.

 • Hvað gerist ef eitthvað sveitafélag segir nei við sameiningu?

  Ef íbúar fella sameiningartillöguna í einu eða fleiri sveitarfélögum halda sveitarfélögin áfram starfsemi sinni í óbreyttri sveitarfélagaskipan. Samstarf um verkefni myndi halda áfram en líklega yrðu gerðar einhverjar breytingar á fyrirkomulagi þess í ljósi upplýsinga sem komið hafa fram í sameiningarviðræðunum. Vilji sveitarstjórnirnar reyna aðra sameiningarkosti þurfa þær að taka ákvörðun um að hefja nýjar viðræður.

 • Þar sem Kirkjuhvoll er rekinn af og á ábyrgð RE á sérstakri kennitölu þarf þá ekki að upplýsa um skuldastöðu þess heimilis? Eignarhlutur RY í Lundi er 100% skuldlaus.

  Nákvæmt yfirlit yfir rekstur Kirkjuhvols má sjá í samþykktum ársreikningi.  Ársreikningar eru aðgengililegir á heimasíðu Rangárþings eystra

 • Er búið að ákveða að kosið verði um sameiningu?

  Já. Þegar sveitarstjórnirnar samþykktu að hefja formlegar viðræður í nóvember hófst ferli sem samkvæmt lögum endar með íbúakosningum.  Kosningarnar fara fram samhliða alþingiskosningum 25. september 2021. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla er hafin (sjá frétt).

 • Hvernig kemur Stafrænt Suðurland inn í verkefnið Sveitarfélagið Suðurland?

  Verkefnið Stafrænt Suðurland er undirverkefni Sveitarfélagsins Suðurlands og er markmiðið að undirbúa sveitarfélögin undir veitingu stafrænnar þjónustu og stjórnsýslu. Verkefnið er til eins árs og búið er að mappa upp  ákveðin lykilmarkmið sem eiga að nást með verkefninu.

 • Ef sameining verður samþykkt, hvað mun sveitarfélagið heita?

  Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður nafnið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

 • Hvað gerist með verkefnið Stafrænt Suðurland ef það verður ekki af sameiningu?

  Verkefnið Stafrænt Suðurland lifir áfram út frá þeim ramma sem búið er að setja utan um það til eins árs óháð því hvort að sveitarfélögin sameinast eða ekki. Sú vinna mun alltaf koma að gagni fyrir öll sveitarfélögin. Ef að sveitarfélögin samþykkja sameiningu auðveldar þessi vinna og flýtir fyrir að íbúar fari að geta notið rafrænnar þjónustu í sameiginlegu ráðhúsi sveitarfélaganna.

 • Ef af sameiningu verður, hvenær tekur nýtt sveitarfélag til starfa?

  Eftir sveitarstjórnarkosningar sem fara fram 28. maí 2022. Gildistaka yrði um miðjan júní 2022

 • Get ég sem íbúi haft áhrif á verkefnið Stafrænt Suðurland?

  Já ekki spurning. Ef þú vilt koma hugmyndum eða ábendingum á framfæri, hikaðu ekki við að hafa samband við Margrét V. Helgadóttur verkefnastjóra, annað hvort í síma eða með tölvupósti. Nánari upplýsingar má finna hér.

 • Munu sveitarstjórnarfulltrúar í sameinuðu sveitarfélagi verða fulltrúar fyrir alla íbúa, hvar sem þeir búa?

  Sveitarstjórnarmönnum ber samkvæmt lögum að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins alls.

 • Hver teiknaði þessar skemmtilegu myndir? Eru til fleiri?

  Elín Elísabet og Rán Flygenring myndlýstu því sem þær heyrðu og sáu á íbúafundum haustið 2020. Það eru fleiri teikningar á svsudurland.is 

 • Hver er munurinn á formlegum og óformlegum sameiningarviðræðum?

  Formlegar viðræður um sameiningu fara fram samkvæmt ákvæðum 119. gr. stjórnsýslulaga nr. 138/2011. Ferlinu því  lýkur með atkvæðagreiðslu á meðal íbúa og niðustöður atkvæðagreiðslunnar í hverju sveitarfélagi eru bindandi fyrir viðkomandi sveitarstjórn. Í ákvörðun um þátttöku í formlegum viðræðum felst því skuldbinding sveitarstjórnar til að láta fara fram atkvæðagreiðslu og til að fylgja niðurstöðum hennar. 

  Óformlegar viðræður fela ekki í sér skuldbindingu af hálfu hlutaðeigandi sveitarstjórna. Þær ráða hvernig viðræðurnar fara fram og geta hver um sig tekið ákvörðun um að hætta viðræðum ef þeim sýnist svo. 

 • Hverjir hafa kosningarétt í atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga?

  Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í einu sveitarfélaganna sem um ræðir, eru sjálfráða og hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, sem uppfylla áðurnefnd skilyrði, hafa kosningarétt ef þeir hafa átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfleytt og ríkisborgarar annarra ríkja hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í fimm ár samfleytt. Sömu reglur gilda þegar kosið er til sveitarstjórna.