Spurt og svarað

 • Hvað gerist ef sveitarstjórn sveitarfélags ákveður að taka ekki þátt í formlegum viðræðum?

  Ef einhver sveitarstjórnanna ákveður að taka ekki þátt í formlegum viðræðum þurfa aðrar sveitarstjórnir að ákveða hvort það hefur áhrif á vilja þeirra til viðræðna við hin sveitarfélögin. Engar reglur gilda um það hvernig staðið skuli að þeirri ákvörðun, en líklegt má telja að þær sveitarstjórnir sem eftir standa myndu hafa samráð við íbúa áður en þær taka ákvörðun um formlegar viðræður á breyttum forsendum.

 • Hver er munurinn á formlegum og óformlegum sameiningarviðræðum?

  Formlegar viðræður um sameiningu fara fram samkvæmt ákvæðum 119. gr. stjórnsýslulaga nr. 138/2011. Ferlinu því  lýkur með atkvæðagreiðslu á meðal íbúa og niðustöður atkvæðagreiðslunnar í hverju sveitarfélagi eru bindandi fyrir viðkomandi sveitarstjórn. Í ákvörðun um þátttöku í formlegum viðræðum felst því skuldbinding sveitarstjórnar til að láta fara fram atkvæðagreiðslu og til að fylgja niðurstöðum hennar. 

  Óformlegar viðræður fela ekki í sér skuldbindingu af hálfu hlutaðeigandi sveitarstjórna. Þær ráða hvernig viðræðurnar fara fram og geta hver um sig tekið ákvörðun um að hætta viðræðum ef þeim sýnist svo. 

 • Hvað gerist næst ef ákvörðun verður tekin um formlegar viðræður um sameiningu?

  Ef sveitarstjórnirnar ákveða að hefja formlegar sameiningarviðræður skv. 119. grein sveitarstjórnarlaga skipa þær samstarfsnefnd sem fær það verkefni að kanna möguleika á sameiningu viðkomandi sveitarfélaga og undirbúa íbúakosningar. Samstarfsnefndin hefur nokkuð frjálsar hendur um það hvernig hún vinnur, en í lögunum er gert ráð fyrir að hún skili áliti til hlutaðeigandi sveitarstjórna.  Hefð hefur skapast fyrir því að samstarfsnefndir stilli upp framtíðarsýn fyrir sameinað sveitarfélag sem íbúar geta borið saman við núverandi stöðu.

 • Er búið að taka ákvörðun um að kosið verði um sameiningu?

  Nei. Sú ákvörðun hefur ekki verið tekin. Verkefnishópurinn vinnur að því að safna upplýsingum til að  gefa sveitarstjórnum forsendur til að taka ákvörðun um það hvort formlegar viðræður verði hafnar.  Verði niðurstaðan sú að hefja ekki formlegar viðræður verður ekki efnt til íbúakosninga. Liður í gagnaöfluninni er þó að kanna hug íbúa á svæðinu til sameiningar. 

 • Fá íbúar að taka þátt í að móta tillögu um sameiningu?

  Skipaðir hafa verið starfshópar sem í sitja fulltrúar sveitarfélaganna fimm. Hver hópur fjallar um afmarkaða þætti starfseminnar s.s. stjórnsýslu og fjármál. Síðar í ferlinu verða haldnir opnir íbúafundir þar sem íbúar geta komið sjónarmiðum sínum, athugasemdum og hugmyndum á framfæri. Ef ákveðið verður að hefja formlegar viðræður verður haft frekara samráð við íbúa um mótun framtíðarsýnar.

 • Hverjir hafa kosningarétt í atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga?

  Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í einu sveitarfélaganna sem um ræðir, eru sjálfráða og hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, sem uppfylla áðurnefnd skilyrði, hafa kosningarétt ef þeir hafa átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfleytt og ríkisborgarar annarra ríkja hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í fimm ár samfleytt. Sömu reglur gilda þegar kosið er til sveitarstjórna.