Vilja verja heilbrigðisþjónustuna

Rafræni íbúafundurinn í Mýrdalshreppi náði til yfir 100 manns, sem var framar vonum. Það jafngildir því að yfir 15 þúsund manns mæti á fund í Reykjavík.

Umræður voru mjög líflegar og áhugaverðar eins og á fyrri íbúafundum. Einar Freyr oddviti Mýrdalshrepps greip í gítarinn og tók lagið milli atriða við mikla hrifningu fundargesta. Rafrænir fundir geta vel verið skemmtilegir!

Að kynningum loknum var fundarfólki sem fyrr skipt í umræðuhópa í samræmi við áhugasvið þeirra og skráningu fyrir fundinn.  Hver hópur ræddi umræðuefnið út frá þessu fjórum spurningum.

  • Eiga sveitarfélögin fimm að halda áfram viðræðum og leyfa íbúum að kjósa um sameiningu þeirra?
  • Hvað ber að varast í sameiningarferlinu?
  • Hvað viljum við varðveita?
  • Hvaða tækifæri liggja í sameiningu sveitarfélaganna?

Íbúar í Mýrdalshreppi telja að ein helsta áskorunin við mögulega sameiningu sveitarfélaganna sé að tryggja áhrif íbúa á jaðarsvæðum og að veita ákveðna grunnþjónustu á hverjum stað.  Í því sambandi var meðal annars rætt um að verja þá heilbrigðisþjónustu sem er til staðar og hjúkrunarheimilið.

Fundarfólk lagði áherslu á að mikilvægt er að hlusta á hinn almenna borgara þannig að allar raddir fái að heyrast, sérstaklega frá jaðarsvæðum. Hugmyndir um hverfis-, eða heimastjórnir fengu góðan hljómgrunn. Í það minnsta fyrstu árin í nýju sveitarfélagi.

Ferðaþjónusta er mikilvægasta stoð atvinnulífsins í Mýrdalshreppi og var lögð áhersla á að varðveita það sem hefur gengið vel á þeim vettvangi. Mikilvægt er Katla jarðvangur haldi sinni UNESCO vottun. Þá eru bæjarhátíðir, markaðir og staðbundin menning mikilvægir þættir í menningu og ferðaþjónustu hvers staðar.

Eins og á öðrum fundum var mikil umræða um fræðslumál og áhersla lögð á að skólarnir haldi sínum sérkennum og geti veitt þjónustu í samræmi við þarfir á hverjum stað.

Tækifæri eru talin liggja í auknum slagkrafti í samskiptum við ríkið, sérstaklega í samgöngumálum. Mýrdælingar sjá líka tækifæri í að nýta fjármagn sem í dag fer til rekstrar í frekari uppbyggingu mannvirkja og til að bæta þjónustu. Til dæmis á sviði brunavarna.

Sama fyrirkomulag verður á fundinum í Skaftárhreppi sem fer fram þriðjudaginn 27. október. Eru íbúar hvattir til að skrá sig á svsudurland.is og taka þátt í líflegum umræðum. Elín Elísabet og Rán Flygenring sjá um að myndlýsa því sem kemur fram á fundunum og má lesa helstu niðurstöður út úr teikningum þeirra hér.