Sveitarstjórnir Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepps hafa samþykkt að ganga til formlegra viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna skv. 119. grein sveitarstjórnarlaga sem lýkur með atkvæðagreiðslu um sameiningu á meðal íbúa. Sveitarstjórnirnar hafa jafnframt skipað fulltrúa í samstarfsnefnd um sameiningu eins og kveðið er á um í lögunum. Fulltrúar í nefndinni eru þeir sömu og fram að þessu hafa setið í verkefnishópi Sveitarfélagsins Suðurlands.
Sveitarstjórnirnar lýsa því yfir í bókunum sínum að heimild í 2. mgr. 120. gr. sveitarstjórnarlaga verði ekki nýtt. Í henni er kveðið á um, að þrátt fyrir að íbúar einhvers sveitarfélaganna hafni sameiningu í kosningum, sé sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga þar sem sameining er samþykkt heimilt að ákveða sameiningu þeirra ef íbúafjöldi nær 2/3 hlutum af samanlögðum íbúafjölda allra sveitarfélaganna. Skilyrði sameiningar er því að hún hljóti atkvæði meirihluta kjósenda í öllum sveitarfélögunum.
Tillaga verkefnishóps Sveitarfélagsins Suðurlands þessa efnis var tekin fyrir á fundum sveitarstjórnanna í desember og samþykkt samhljóða. Sveitarstjórnarmenn eru því einhuga um að leggja ákvörðunina um sameiningu í dóm kjósenda. Ákvörðunin er meðal annars tekin með hliðsjón af niðurstöðum viðhorfskönnunar þar sem meirihluti svarenda taldi æskilegt að íbúar fengju að kjósa um málið (sjá frétt).
Samstarfsnefnd um sameiningu mun taka til starfa í upphafi næsta árs og hefja formlegar viðræður.