Hver er munurinn á óformlegum og formlegum sameiningarviðræðum?

Í kjölfar íbúafunda hafa borist fyrirspurnir um hvað það þýði að hefja formlegar sameiningarviðræður og hver munurinn sé á formlegum og óformlegum viðræðum.

Sveitarfélögin fimm eiga í óformlegum viðræðum, en ætla að taka ákvörðun fyrir jól hvort þau hefja formlegar sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Þegar sveitarfélög eiga í óformlegum viðræðum (könnunarviðræðum) er forræðið á hendi sveitarstjórnanna og hver og ein sveitarstjórn getur hætt þátttöku í viðræðunum.

Þegar sveitarfélög hefja formlegar viðræður, fer af stað lögbundið ferli sem endar með kosningum um sameiningartillöguna. Sveitarstjórnir geta þá ekki hætt við. Skipuð er samstarfsnefnd sem fær formlegt umboð til að vinna að tillögu og er óháð sveitarstjórnunum. Valdið til að samþykkja eða hafna tillögunni liggur hjá íbúum.

Ef íbúar í sveitarfélagi fella tillögu um sameiningu er það bindandi fyrir viðkomandi sveitarstjórn. Það sama á við ef tillagan er samþykkt.

Meðfylgjandi mynd sýnir ferli formlegra viðræðna. Ef sveitarstjórnirnar ákveða að hefja formlegar viðræður er áætlað að íbúar fái tækifæri til að kjósa um sameiningartillögu vorið eða haustið 2021. Verði sameining samþykkt myndi nýtt sveitarfélag taka til starfa eftir sveitarstjórnarkosningar í maí 2022.