Allt er breytingum háð

Frábær þátttaka var á íbúafundi í Rangárþingi eystra í gærkvöldi. Á fundinn mættu um 80 þátttakendur, en ljóst er að við nokkrar tölvur voru fleiri en einn að taka þátt.  Auk þeirra fylgdust um 60 með útsendingu á Facebooksíðu Rangárþings eystra, þannig að fundurinn hefur náð til yfir 150 manns.

Að kynningum loknum var fundarfólki sem fyrr skipt í umræðuhópa í samræmi við áhugasvið þeirra og skráningu fyrir fundinn.  Hver hópur ræddi umræðuefnið út frá þessu fjórum spurningum.

  • Eiga sveitarfélögin fimm að halda áfram viðræðum og leyfa íbúum að kjósa um sameiningu þeirra?
  • Hvað ber að varast í sameiningarferlinu?
  • Hvað viljum við varðveita?
  • Hvaða tækifæri liggja í sameiningu sveitarfélaganna?

Íbúar í Rangárþingi eystra telja að ein helsta áskorunin við mögulega sameiningu sveitarfélaganna séu vegalengdir um svæðið. Leita þarf leiða til að skipuleggja þjónustuna þannig að hún nýtist öllum og að íbúar hafi áhrif, óháð því hvar þeir búa.

 Varað var við því að lofa of miklu í tengslum við mögulega sameiningu, eða halda því fram að allt verði óbreytt. Samfélagið er að þróast hratt hvort sem af sameiningu sveitarfélaganna verður eða ekki. Allt er breytingum háð. Fram kom að rafræn stjórnsýsla er að breyta hugmyndinni um miðlægt ráðhús og aðgengi íbúa að þjónustu. Nú geta skrifstofur verið alllstaðar. Því var varpað fram að mögulega geti félagsheimilin öðlast nýtt líf sem þjónustusmiðstöðvar og skrifstofur.

Mikil umræða var um fræðslumál og áhersla lögð á að skólarnir haldi sínum sérkennum og geti veitt þjónustu í samræmi við þarfir á hverjum stað.

Tækifæri eru talin liggja í umhverfis- og skipulagsmálum, m.a. að skipulag á hálendinu verði á einni hendi. Samgöngur og uppbygging á hálendinu verði hugsuð sem heild. Skipulagsmál, umhverfismál, landnýtingu og landbúnaðarmál þurfi að vinna með það að leiðarljósi að varðveita ímynd svæðisins um hreinleika. Sveitarfélagið Suðurland er hérað sem framleiðir matvæli í stórum stíl og er eftirsóttasta ferðamannasvæði landsins. Mikill styrkur væri af sókn í markaðsmálum fyrir svæðið í heild sinni.

Sama fyrirkomulag verður á þeim fundum sem framundan eru í Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi og eru íbúar hvattir til að skrá sig á svsudurland.is og taka þátt í líflegum umræðum. Elín Elísabet og Rán Flygenring sjá um að myndlýsa því sem kemur fram á fundunum og má lesa helstu niðurstöður út úr teikningum þeirra hér.