Sveitarstjórnir Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepps hafa samþykkt að tillögu um að íbúar kjósi um sameiningartillögu á næsta ári. Ákvörðunin er meðal annars tekin með hliðsjón af niðurstöðum viðhorfskönnunar þar sem meirihluti svarenda taldi æskilegt að íbúar fengju að kjósa um málið
Flestir fylgjandi því að kosið verði um sameiningu
27.11.2020
Í viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir gerðu meðal íbúa þeirra fimm sveitarfélaga sem eiga aðild að „Sveitarfélaginu Suðurlandi“ reyndust 69% þeirra sem tóku afstöðu hlynnt því að sveitarfélögin taki upp formlegar sameiningarviðræður sem enda með íbúakosningu, en um 16% andvíg. Í fjórum sveitarfélaganna er meirihluti svarenda fylgjandi viðræðum, en meðal íbúa Ásahrepps er nánast jöfn skipting á milli þeirra sem eru hlynntir og þeirra sem eru andvígir. Þátttakendur í könnuninni voru 877, eða um 20% íbúa svæðisins 18 ára og eldri.
Lagt til að kosið verði um sameiningartillögu á næsta ári
24.11.2020
Verkefnishópur ,,Sveitarfélagsins Suðurlands“ hefur lagt til við sveitarstjórnir Ásahrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps að hafnar verði formlegar sameiningarviðræður sem lýkur með því að íbúar kjósa um sameiningu sveitarfélaganna á næsta ári. Sveitarstjórnirnar munu fjalla um tillöguna á fundum sínum í desember og taka endanlega ákvörðun.
Eftir fimm íbúafundi og samráð við íbúa liggur fyrir mjög mikið efni. Verkefnisstjórar hafa gert samantekt sjónarmiða og ábendinga sem fram komu á hverjum og einum íbúafundi.